Byrjar Akureyri við Berlín? Hvers vegna heita elstu bæjarhlutarnir Fjaran og Innbærinn? Hvað er með öll þessi dönsku heiti á húsunum? Þessum spurningum og ásamt mörgum fleirum verður svarað í gönguferð Minjasafnsins á Akureyri um Innbæinn og Fjöruna á Akureyri á Akureyrarvöku laugardaginn 26. ágúst. Leiðsögufólk verður Hörður Geirsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir.
Í göngunni verða vígðir Sögustaurar sem er útisýning á ljósastaurum í öllum hverfum við gangstíga, á útivistarsvæðum en einnig á óvæntum stöðum. Á sögustaurunum verður fallega hannaður límmiði með viðeigandi tákni og QR-kóða sem opnar á örsögu, ljóð eða skemmtilega staðreynd sem verður miðlað með ljósmyndum, hljóði, myndbrotum og texta sem tengist sögu Akureyrar á einn eða annan hátt.
Sögurnar eiga beint við umhverfið þar sem sögustaurinn er. Þannig verður áhugavert fyrir íbúa, bæði börn og fullorðna, að skoða sitt nærumhverfi. Hvað var hér áður? Verkefnið markar upphaf að fleiri slíkum sögustaurum víðar um bæinn og bæjarlandið.
Forsetahjónin verða með í för og opna Sögustaurasýninguna í göngunni um Innbæinn og Fjöruna.
Eftir gönguna er tilvalið að koma við á Minjasafninu á Akureyri og líta við á sýningunni Akureyri - bærinn við Pollinn, Tónlistarbærinn Akureyri nú eða Nonnahúsi en aðgangur er ókeypis.
Allir velkomnir – nema hvað!
Nánari upplýsingar:
Dagsetning: 26. ágúst
Tímasetning: kl. 10.00 - 11.00
Staðsetning: Ganga hefst við Laxdalshús
Aðgangseyrir: Enginn aðgangseyrir
Viðburðurinn er hluti af Akureyrarvöku 2023.