Heimur málverksins býr yfir dulúð og draumkenndum narratívum um merkingu og myndrænt landslag. Í rýminu speglast víddir hins tvívíða flatar og hins þrívíða efnisheims, þar sem form, línur og fletir hafa oltið fram úr striganum inn í rýmið, eins og teningar sem er kastað á spilaborð. Að standa í miðju málverki og upplifa það innan úr því sjálfu, finna fyrir andrúmslofti og efniskennd þess. Að hreyfa sig innan strigans. Flakk einfaldra en óræðra forma vídda á milli hefur í för með sér nýja möguleika og ljóst er að ekki er allt sem sýnist á tvívíðum fleti strigans.
Salóme Hollanders (f. 1996) lauk BA-námi við Listaháskóla Íslands í vöruhönnun vorið 2022. Verk hennar eru gjarnan á mörkum hönnunar og myndlistar, þar sem hún kannar rýmið sem skapast við skörun sviðanna tveggja. Salóme hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis, en sýningin Engill og fluga er fyrsta einkasýning hennar á opinberu listasafni.