Laugardaginn 22. febrúar kl. 15 verða sýningarnar Sköpun bernskunnar 2025 og Margskonar I opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Sólveig Baldursdóttir, myndhöggvari, opnar sýningarnar formlega og eldri barnakór Akureyrarkirkju syngur. Sýningarstjóri beggja sýninga er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.
Þetta er í tólfta sinn sem sýning með heitinu Sköpun bernskunnar er sett upp í Listasafninu. Markmið sýningarinnar er að efla safnfræðslu og gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn, ásamt Minjasafninu á Akureyri / Leikfangahúsinu.
Í ár var myndhöggvaranum Sólveigu Baldursdóttur boðin þátttaka í verkefninu. Einkasýningu hennar, Augnablik – til baka, lauk í Listasafninu um síðastliðna helgi og mun í framhaldinu umbreytast í Sköpun bernskunnar, þar sem safngestir munu sjá skúlptúra hennar í nýju samhengi og í samtali við verk barnanna. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Hólmasól og grunnskólarnir Giljaskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Í vetur komu skólabörnin í Listasafnið og unnu verk sín fyrir sýninguna undir handleiðslu listamannsins. Þar fengu þau tækifæri til að kynnast Sólveigu og nota skúlptúra hennar sem innblástur í eigin sköpun.
Margskonar I
Hvernig fæðist hugmynd að listaverki? Listamenn nota margskonar aðferðir til að miðla og tjá hugmyndir sínar. Í myndlist merkir orðið miðill þá leið eða aðferð sem listamaður hefur valið til að vinna verk sín í. Til eru fjölbreyttar miðlunaraðferðir og skilin á milli þeirra geta verið óljós. Sumir listamenn nota miðla sem löng hefð er fyrir á meðan aðrir gera tilraunir með ólík efni og tækni til þess að ná fram þeim áhrifum sem verið er að sækjast eftir.
Markmið sýningarinnar er að fræða safngesti um ólíka miðla myndlistar út frá völdum verkum úr safneign Listasafnsins á Akureyri. Verkin eru fjölbreytt, eftir ólíka listamenn og unnin með margskonar aðferðum. Safngestir fá jafnframt tækifæri til að setja mark sitt á sýninguna, sækja sér innblástur í verkin og skapa sína eigin list í hvetjandi umhverfi.