Sumartónar 2025 bjóða uppá júróvisjónfara okkar Íslendinga 2025!
VÆB bræður ásamt stelpuhljómsveitinni Skandal syngja sumarið inn á Barnamenningarhátíðinni á Akureyri í ár!
Það verður sannkölluð tónlistarveisla með júróvisjónívafi á sviði Hamraborgar í Hofi á Sumartónum Ungmennaráðs Akureyrar, Menningarhússins Hofs og Akureyrarbæjar í tilefni Barnamenningarhátíðar á Akureyri.
VÆB bræður mæta til Akureyrar í fyrsta sinn!
VÆB bræður, þeir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi Matthíassynir, skutust upp á stjörnuhiminnn á síðasta ári þegar þeir tóku fyrst þátt í undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins. Í ár unnu þeir hinsvegar eins og allir vita með hið geysivinsæla lag RÓA, en lagið semja þeir sjálfir. Þeir munu keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision í Sviss í maí og hvert mannsbarn á Íslandi mun fylgjast spennt með!
Þeir flytja öll helstu lögin sín og lofa bullandi stemningu!
Skandall er stúlknahljómsveit uppsprottin á Norðurlandi sem hefur starfað síðan árið 2022. Hljómsveitina skipa þær Helga Björg (rafbassi og víóla), Inga Rós (söngur), Kolfinna Ósk (hljómborð og fiðla), Margrét (rafbassi og rafmagnsgítar), Sóley Sif (trommur og bakraddir) og Sólveig Erla (þverflauta).
Ferill þeirra er að hefjast fyrir alvöru og hafa þær spilað víða á útihátíðum, böllum o.s.frv. og hafa tekið þátt og sigrað ýmsar keppnir, svo sem Söngkeppni MA og Viðarstauk.
Kynnar Sumartóna eru þær París Anna Bergmann og Rebekka Rut Birgisdóttir.
Enginn aðgangseyrir.
Öll hjartanlega velkomin meðan húsrúm leyfir!