Til baka

Hvítar Súlur Keisarans

Hvítar Súlur Keisarans

Tónlistarfélag Akureyrar

Hvítar súlur er ný tónleikaröð Tónlistarfélags Akureyrar sem verður hleypt af stokkunum á Pálmasunnudag þann 13. apríl kl 16 í Hömrum.

Það er strengjakvartettinn Spúttnik sem kemur fram á þessum fyrstu tónleikum raðarinnar. Kvartettinn hefur komið fram við ýmis tækifæri frá stofnun hans m.a. á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju, Listahátíðinni Ljósanótt í Hljómahöll í Reykjanesbæ, Hannesarholti, Sumartónleikum í Listasafni Sigurjóns og Gljúfrasteini og á Berjadögum á Ólafsfirði. Kvartettinn hefur lengi verið í nánu samstarfi við fiðlusmiðinn Jón Marinó Jónsson og leikið við hin ýmsu tækifæri á hljóðfæri hans m.a. hér hjá Tónlistarfélagi Akureyrar. En verkefnið fékk einnig styrk til þess að halda tónleika í fangelsunum Litla-Hrauni og Hólmsheiði.

Á tónleikunum á Pálmasunnudag verða fluttir tvennir kvartettar. Annars vegar Strengjakvartett Op.76 No 3 eftir Joseph Haydn og Strengjakvartett No 3 eftir Peteris Vasks. Kvartettinn eftir Haydn er talinn einn áhrifamesti kvartett tónskáldsins og þar að auki eitt þekktasta tónverk hans. Kvartettinn dregur nafn sitt af öðrum kafla verksins en kaflinn var upphaflega saminn til heiðurs Austurríkiskeisara. Laglínan varð síðar að þjóðsöng Þjóðverja. Kvartettinn eftir Vasks er saminn uppúr gömlu jólalagi frá Lettlandi. Verkið fjallar um hina brothættu von um fið og hina innri togstreitu okkar milli vonleysis og vonar í heimi á heljarþröm.

Flytjendur: Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir og Diljá Sigursveinsdóttir fiðlur, Vigdís Másdóttir víóla og Gréta Rún Snorradóttir selló.

Hvenær
sunnudagur, apríl 13
Klukkan
16:00-18:00