Í tilefni af 160 ára afmæli Akureyrarbæjar á þessu ári verður boðið upp á leiðsögn í skólasögustrætó og gönguferð þar sem fjallað verður um menntun og frístundir barna á Akureyri fyrstu 100 árin í sögu bæjarins með áherslu á leikvelli, barnaheimili/leikskóla, smábarnaskóla og barnaskóla.
Skólasögustrætóinn gengur sunnudaginn 28. ágúst kl. 10:00 og kl. 13:00 og verður lagt af stað frá strætisvagnamiðstöðinni í Miðbænum hjá BSO. Hver hringur tekur um tvær klst.
Í upphafi ferðar er stutt innleiðing fyrir fólk. Fyrst verður ekið suður Hafnarstræti og fjallað á leiðinni um gamla barnaskólann við Hafnarstræti 53 og farið úr vagninum á stoppistöðinni við Hafnarstræti 18. Þaðan verður gengið inn að Minjasafni og þar verður farið aftur upp í vagninn. Á leiðinni verður fjallað um fyrsta leikvöllinn í Innbænum og hús þar sem barnaskólakennsla fór fram.
Því næst verður ekið norður Drottningarbraut og farið úr vagninum á bílaplaninu við Strandgötu 31 og gengið um Oddeyrina og fjallað um fyrsta leikvöllinn í hverfinu, leikskólann Iðavöll, smábarnaskóla Jennu og Hreiðars og hús þar sem barnaskólakennsla fór fram.
Farið verður aftur í vagninn við Oddeyrarskóla og keyrt að Ósi í Sandgerðisbót í Glerárhverfi og fjallað um gamla barnaskólann sem þar var til húsa en ekki farið úr vagninum.
Næst verður stoppað við Glerárskóla en ekki farið úr vagninum og þar fjallað um Árholt sem tók við af barnaskólanum í Sandgerðisbót.
Þaðan verður ekið suður Hlíðarbraut og stoppað við Pálmholt/Flúðir til að fjalla um barnaheimilið en ekki farið úr vagninum.
Keyrt verður þaðan um Þingvallastræti og farið úr vagninum í Gilinu hjá arkitektastofunni Kollgátu og gengið þaðan upp að Þingvallastræti 14 til að fjalla um smábarnaskóla Elísabetar Eiríksdóttur sem þar var til húsa og gengið þaðan að gamla barnaskólahúsinu (Rósenborg) og fjallað þar um fyrsta leikvöllinn á Akureyri sem var á túninu þar sem Akureyrarkirkja stendur nú og endað á að skoða gamla barnaskólahúsið ef tíminn leyfir. Þeir sem vilja geta farið í vagninnn við Laugargötu/planinu við Íþróttahöllina og farið með honum í miðbæinn þar sem ferðin byrjaði.
Leiðsögumenn í ferðinni eru Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar, Hanna Rósa Sveinsdóttir sérfræðingur hjá Minjasafninu á Akureyri og Sesselja Sigurðardóttir leikskólaráðgjafi hjá Akureyrarbæ.
Skólasögustrætóinn er samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar, Minjasafnsins á Akureyri og Strætisvagna Akureyrar.
Viðburðurinn er styrktur af Menningarsjóði Akureyrar og hluti af Akureyrarvöku.