Kan(l)ínudans er dansleikhús ætlað börnum, 4-10 ára, og fjölskyldu áhorfendum. Verkið er dansverk um tvær kanínur sem leika í leit að tengingu. Aðstandendur og höfundar sýningarinnar eru danslistafólkið Sóley Ólafsdóttir, íslenskur dansari og Leevi Mettinen, finnskur dansari. Plötusnúðurinn DJMAR!A, María Kristín Jóhannsdóttir, kemur fram í sýningunni ásamt Leevi og Sóleyju. “Tvær kanínur; Leynir og Læða. Kanínurnar snúast hvor um aðra og dansa á línunni. Læða er þver köntuð og hröð kanína. Leynir er rólegri, fylgir flæðinu og er ekki eins upptekinn að línu dansinum. Stundum er gaman og línurnar eru skýrar en stundum eru línurnar óljósar og samskiptin í móðu. Kanínurnar eru fastar saman á þessum reiti, í þessari framkomu. Hvernig mun þetta fara? Geta þær dansað þennan línudans saman?” Verkið tekst á við líkamnaðar tilfinningar og samskipti í gegnum karakter bundna kóreógrafíu sem byggist upp með klappleikjum. Verkið tekst á við samskipti og hegðun í samhengi leikjamynstra, kanínurnar týnast í leik gleðinni og þar með þurfa þær að takast á við erfið málefni eins og mörk. Eftir sýninguna verður áhorfendum boðið á opið dansgólf þar sem DJMAR!A þeytir skífum og Leynir og Læða leiða lítið kanínu námskeið.
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrar.