Hlýja og nostalgía einkenna gluggasýninguna Jólaævintýrið í Hafnarstræti 88 sem opnar 1. desember og stendur út aðventuna og jólahátíðina. Sýningin hentar ungum sem öldnum jólabörnum og er aðgengileg öllum stundum þar sem hennar er notið utan frá götunni séð. Jólaævintýrið er tilvalinn áfangastaður í gönguferðum og öll þau sem eiga leið hjá glugganum hafa kost á að stíga inn í töfraheim jólanna, eiga friðsæla stund eða njóta innihaldsríkrar samveru með fjölskyldu og vinum.
Systurnar Brynja Harðardóttir Tveiten myndlistarkona og Áslaug Harðardóttir Tveiten öðru nafni Fröken Blómfríður eiga heiðurinn af sýningunni. Þær hvetja öll að stíga inn í Jólaævintýrið með þeim, staldra við í amstri dagsins og jafnvel sleppa hugmyndarfluginu lausu, búa til atburðarrás út frá sögusviðinu, bregða á leik, t.d. telja jólasveinana, rifja upp góðar jólaminningar, velja sér fallegasta, skrýtnasta eða jafnvel ljótasta jólaskrautið, taka myndir en fyrst og fremst umvefja sig hlýju og gleði jólanna.
GLEÐILEGT JÓLAÆVINTÝRI
Brynja og Áslaug