"Blús-rokk-dúettinn GG blús verður á norðurslóðum í sumarbyrjun og heldur dúndur tónleika á Græna hattinum, fimmtudagskvöldið 5. júní. Guðmundur Jónsson (Sálin, Nykur) leikur á gítar/söng, Guðmundur Gunnlaugsson (Kentár, Sixties) spilar á trommur/söng og sver hljóðfæraskipan þeirra og tónmál sig í ætt við engilsaxneska dúetta líkt og Black Keys, White Stripes og Royal Blood. Það er mikil tilhlökkun hjá GG blús að telja í hjá Hauki því töluvert er síðan siðast og ekki er verra að dúóið er með glænýja skífu í farteskinu er nefnist - Trouble In Mind - þar sem lagið Make It Right hefur þegar fengið að hljóma títt í útvarpinu. Herlegheitin munu hefjast um kl. 22:00 og munu þeir nafnar enn sem áður leika sígrænar blús-rokk ábreiður í bland við frumsamda ópusa af báðum sínum plötum. Sjáumst!