Þórgunnur Oddsdóttir fjölmiðlakona og myndlistamaður tekur okkur í stutt spjall um þessa sérkennilegu listakonu í Bestu stofu Sigurhæða: Ólöf Sigurðardóttir skáld frá Hlöðum var ein helsta skáldkona landsins áratugina í kringum 1900 og var á skáldalaunum frá Alþingi frá 1913 og til dauðadags 1934. Ólöf ólst upp utan hins minnsta menningargeisla á Vatnsnesi í Húnaþingi, lærði til ljósmóður í Kaupmannahöfn, gerðist skáld í Reykjavík, féll fyrir Þorsteini Erlings og átti síðar í ástarsambandi við hann látinn á miðilsfundum. Ólöf var tíður gestur í Sigurhæðum og þau Matthías góðir félagar. Í Ólöfu var öflugur innri listamanns neisti sem hún náði að halda lifandi alla tíð - hvernig fór hún að því? - Við fjöllum um það hvernig ólíkt listafólk fetar sína eigin leið, þannig að þau geti sinnt listsköpun sinni sem mest og best.
Enginn aðgangseyrir. Best er að koma að Sigurhæðum neðan úr Hafnarstræti. Þar eru líka bæði hjóla- og bílastæði.