Deadline er margmiðlunar-sviðsverk eftir Andro Manzoni, flutt af honum sjálfum, og leikstýrt af Áka Frostasyni.
Verkið endurskapar einkenni kulnunnar (gjarnan þekkt sem Burn-out) á sviði og krefst talsverðrar nándar við áhorfendur svo skynja megi hreyfingu og andardrátt flytjandans. Kulnun, sem er algeng afleiðing þess þegar fólk vinnur yfir sig, er einkenni sem hefur fylgt fjölskyldu Andro Manzoni í nokkrar kynslóðir og reynir hann með flutningi sínum að upplifa einkenni kulnunar á sviði, til að afstýra því að hann þurfi að takast á við þau í raunveruleikanum.
Á sýningunni gengur hann í gegn um þrjár gerðir kulnunnar: Kulnun afa síns, kulnun föður síns og kulnun þá sem mögulega hefur skotið rótum í honum sjálfum.
Til að auka á dýpt skynjunnar við flutninginn notast Andro við lykt, hljóð, ljós, raflost og aðra þætti sem gera honum kleift að fá vott af raunverulegri þjáningu, og losa sinn raunveruleika þar með undan einhverjum af eyðileggingarmætti kulnunnar.
Andro Manzoni er listamaður frá eyjunni Krk í Króatíu. Hann hefur fengist við sviðsgjörninga og hljóðhönnun og á auk þess að baki feril sem slagverksleikari. Andro hefur unnið mikið í samstarfi við dansara og tónlistamenn, bæði sem höfundur og flytjandi, og vinnur gjarnan að verkum sem samþætta fleiri en einn listrænan miðil.
Áki Frostason er listamaður frá Akureyri sem fæst við tónlist, myndbandsverk, hljóðsköpun, og margmiðlunarlist. Hann er einn af stofnendum Kaktusar, sýningarrýmis í Listagilinu, en hefur einnig staðið sjálfstætt fyrir menningarviðburðum á Akureyri til fjölda ára.
Þó Áki geri sig út frá Akureyri, er hann oft hluta ársins við störf erlendis, og hefur það sem af er þessu ári starfað við verkefni í Slóveníu, Eistlandi, Ástralíu, Finnlandi, Danmörku og Portúgal.
Andro og Áki kynntust við nám í Eistlandi, og hafa síðan þá unnið saman bæði sem höfundar og flytjendur. Í sumar voru þeir einn mánuð í residensíu í Outukumpu í Finnlandi þar sem þeir unnu meðal annars að undirbúningi fyrir uppsetningu á verkinu Deadline.
ATH: Viðburðurinn hentar ekki fyrir börn eða viðkvæma einstaklinga.
Blikkljós á sýningunni geta valdið flogakasti hjá flogaveikum einstaklingum.
Nánari upplýsingar:
Dagsetning: 25. ágúst
Tímasetning: 22.30 - 23.30
Staðsetning: Hof, Blackbox
Aðgangseyrir: Enginn aðgangseyrir
Annað: Tekið er við frjálsum framlögum til styrktar Geðhjálpar
Viðburðurinn er styrktur af Akureyrarbæ og Menningarfélaginu og hluti af Akureyrarvöku 2023.