Í tilefni af barnamenningarhátíð Akureyrar er GLUGGINN í Hafnarstræti 88 í ævintýraskapi. Leikföng sum frá fyrri tíð og ýmis hugðarefni barna og unglinga prýða gluggann í skemmtilegum uppstillingum. Gluggasýningin er fyrir alla aldurshópa og er tilvalinn áfangastaður í göngutúrum og vettvangsferðum enda notið utan frá séð. Ungum sem öldnum gefst færi á að fara í svolítið nostalgíuferðalag og virða fyrir sér eitt og annað sem eflaust vekur gleði og forvitni auk þess að skapa tækifæri til staldra við í dagsins önn og vera uppspretta frásagna, spjalls og leikja. Ekki síst milli kynslóða.
Sýningin er hugverk systranna Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og Áslaugar Harðardóttur Tveiten sem rekur skrautmunasöluna Fröken Blómfríður. Þær systur hvetja alla sem eiga leið hjá til að taka ímyndunaraflið með og bregða á leik. Hér eru nokkrar hugmyndir.
Að lokum ekki gleyma að kíkja í Rauða póstkassann , skrifa í gestabókina, trekkja spiladósina og athuga hvort lítil gjöf leynist í póstkassanum áður en ferðalaginu er haldið áfram.
Gleðilega barnamenningarhátíð!