Við Aðalstræti 70 er einn sérstæðasti garður kaupstaðarins við Pollinn fyrir sakir listaverka sem þar eru. Höggmyndirnar eru eftir listakonuna í Fjörunni, Elísabetu Geirmundsdóttur, sem var margt til lista lagt. Hún samdi líka lög, orti þulur og ljóð, málaði, skar út í tré og myndskreytti bækur.
Enn rekumst við á byggingameistarann Sveinbjörn Jónsson en hann teiknaði og byggði Aðalstræti 72 sem er með snert af funkis en samhverf (symmetrísk) framhliðin vísar til eldri tíma í byggingalist.
Í litla húsinu niður við götuna, Aðalstræti 74, var prentsmiðja á 19. öld en í Innbænum hafa verið reknar prentsmiðjur í alls fjórum húsum, Aðalstræti 17, 50, 52 og 74.
Fyrir ofan Aðalstræti 74 er nýlegt hús sem ber númerið 76. Á þessari lóð fæddist hinn 7. apríl 1859 sveinbarn er fékk í skírninni nafnið Kristján Níels Jónsson og fluttist 18 ára gamall vestur um haf og kom aldrei aftur til Íslands. Fyrir vestan varð hann kunnur undir nafninu Káinn og er þekktasta skáldið sem fæðst hefur á Akureyri. Til Akureyrar orti Káinn um jólaleytið 1932:
Mér er eins og öðrum fleiri
ættjörð týnd og gleymd,
samt er gamla Akureyri
enn í huga geymd.
Káinn bjó alla tíð við naum kjör vestra. Hann kærði sig kollóttan um veraldleg auðæfi og orti:
Ég hef ei auðinn elskað
og aldrei til þess fann;
ég er í ætt við soninn,
en ekki hinn ríka mann.