Sumartónleikar í Akureyrarkirkju er árleg tónleikaröð sem haldin er alla sunnudaga í júlí ár hvert. Tónleikaröðin hefur verið haldin síðan 1987 og fest sig vel í sessi. Það voru þau Margrét Bóasdóttir söngkona og Björn Steinar Sólbergsson þáverandi organisti við Akureyrarkirkju sem komu tónleikaröðinni á laggirnar. Hvort um sig var nýkomið úr löngu tónlistarnámi á erlendri grundu og þau vildu búa til farveg fyrir tónleikahald að sumri. Margrét og Björn sáu svo um tónleikana ásamt mökum sínum Kristjáni Val Ingólfssyni og Hrefnu Harðardóttur í 5 ár. Árið 1992 var ákveðið að búa til stöðu framkvæmdastjóra sem sæi um undirbúning og umsjón tónleikanna, sinnti Hrefna Harðardóttir því starfi til ársins 2008 en þá tók Sigrún Magna Þórsteinsdóttir við.
Tónleikaröðin gekk í tólf farsæl ár, undir nafninu Sumartónleikar á Norðurlandi en frá og með árinu 1999 eru tónleikar aðeins haldnir í Akureyrarkirkju og heita nú Sumartónleikar í Akureyrarkirkju. Jónína Björt Gunnarsdóttir hefur nú umsjón með tónleikaseríunni.
Dagskrá tónleikaseríunnar er auglýst á viðburðadagatali Halló Akureyrar, heimasíðu Akureyrarkirkju og á facebook síðu tónleikaseríunnar.