Græna leiðinRauða leiðin Bláa leiðin Gula leiðin
Hrísey er rétt um 11,5 ferkílómetrar að flatarmáli. Hún er um 7 km að lengd og 2,5 km þar sem hún er breiðust. Hæst er hún rétt norðan við vitann, en þar er hún 110 m yfir sjó. Þar er kallaður Bratti og eru skriður þar fram í sjó.
Meðfram austurhliðinni er víða bratt í sjó fram, há björg og margar fallega klettamyndanir og berggangar á meðan vestur- og suðurhliðin eru meira aflíðandi og með góðu aðgengi niður að sjó. Í nágrenni þorpsins má finna fínar sandstrendur sem eru þó breytilegar alt eftir árstíð og veðráttu.
Aðgengi að norðurhluta eyjarinnar er takmarkað þar sem sá hluti er í einkaeigu og þar er æðarvarp, sá hluti er afmarkaður með girðingu þvert yfir eyjuna og með hliði á veginum sem liggur að vitanum. Hægt er heimsækja þann hluta eyjarinnar í skipulagðri ferð á vegum Ferðamálafélagsins (s: 6950077) auk þess sem hægt er að óska eftir aðgengi með því að hafa samband við landeigendur. Takmörkun á umferð um norðurhlutan er sérstaklega mikil um varptímann frá apríl og fram í miðjan júlí.
Aðgengi að suðurhluta eyjarinnar er gott alt árið og öllum velkomin. Gestir eru þó beðnir að taka tillit til fuglanna sérstaklega á varptímanum frá miðjum maí fram um miðjan júlí og hafa hunda ætíð í bandi. Þar má finna eftirfarandi fjórar gönguleiðir:
1. Græna leiðin
(merkt leið með stikum)
Lengd: 4.1 km
Tími: 1+ klst.
Undirlag: malbik á akvegum en annars breiður stígur með salla
Upphaf/Endir: Við ferjuhöfnina
Bílastæði: Árskógssandur - við ferjuhöfnina (landmeginn)
Áhugaverðir staðir: Þorpið, Háborðið, listaverkið Yggldrasil, Orkulindin, tjörnin
Vinsæll hringur sem kemur við á mörgum áhugaverðum stöðum Hríseyjar. Gengið er eftir Sjávargötu við höfnina upp í "miðbæinn" við kirkjuna, þaðan sem gengið er eftir aðalgötunni Norðurvegi til norðurs. Í gönguferðinni er m.a. gengið framhjá búðinni, kirkjunni og söfnum eyjarinnar, sumt í upphafi göngu annað í lokin.
Frá Norðurvegi er gengið í gegnum hvannarsvæði upp að og fram hjá fiskitrönunum eftir góðum göngustíg, þaðan áfram upp á Háborðið sem er einn besti útsýnisstaðurinn á eyjunni þar sem finna má áningarstað með bekk. Frá Háborðinu er gengið niður smá brekku til suð-vesturs, niður á flata þar sem finna má útilistaverkið Yggldrasil á hægri hönd sem afhjúpað var árið 1998.
Bandaríski listamaðurinn David Hebb fékk Fullbright styrk til listsköpunar í Hrísey og átti verkið að tengja norræna goðafræði eða ásatrú við ímynd nútímaiðnaðar og iðnverka með einhverjum hætti. Verkið er um fjórir metrar í þvermál og þriggja metra hátt. Eiginleikar þess fela í sér að það muni geta fallið og hrörnað, jafnvel horfið á vit náttúrunnar innan nokkurra ára og er efniviður þess stál, grjót, steypa og gull ásamt öðrum jarðefnum og hrísla er á hnjúki verksins.
Frá listaverkinu er gengið áfram eftir góðum stíg til suðurs að orkulindinni þar sem bekkir bíða þreyttra göngugarpa sem þar geta safnað ríkulegrar orku. Frá lindinni er gengið í gegnum skjólsælan skógarreit og framhjá lítilli tjörn áður en aftur er komið niður á veginn sem liggur að þorpinu.
Kort af gönguleiðinni og hæðaryfirlit
2) Rauða leiðin
(merkt leið með stikum)
Lengd: 6.7 km
Tími: 2+ klst.
Undirlag: malbik á akvegum en annars stígar með salla og að hluta kindagötur í grónu landi.
Upphaf/Endir: Við ferjuhöfnina í þorpinu
Bílastæði: Árskógssandur - við ferjuhöfnina (landmeginn)
Áhugaverðir staðir: Þorpið, Borgarbrík, Stóri og litli Boli, Hvatastaðir, listaverkið Yggldrasil, Orkulindin og tjörnin.
Falleg gönguleið frá höfninni og þorpinu, upp á eyjuna og meðfram austurströnd eyjarinnar þar sem m.a. er gengið fram hjá fiskitrönum, í gegnum trjáreit yfir móa og niður að klettóttri austurströnd eyjarinnar. Á austurströndinni má sjá fjölbreyttar klettamyndanir, innskot og sker og ef heppnin er með manni er oft á tíðum hægt að sjá til hvala útfyrir ströndinni.
Leiðin liggur hjá minjum um forna búsetu, bænum Hvatastöðum og mógröfum. Á suðurhluta eyjarinna má sjá listaverkið Yggldrasil, komið er við í orkulindinni og gengið í gegnum skjólsælan skógarreit og áfram yfir á vesturhlutann inn í þorpið þar sem hringnum er lokið.
Kort af gönguleiðinni og hæðaryfirlit
3) Gula leiðin
Lengd: 6.8 km
Tími: 2+ klst.
Undirlag: malbik á akvegum en annars stígur með salla að hluta og kindagötur að hluta
Upphaf/Endir: Við ferjuhöfnina
Bílastæði: Árskógssandur - við ferjuhöfnina (landmeginn)
Áhugaverðir staðir: Þorpið, Háborðið, listaverkið Yggldrasil, Orkulindin, tjörnin
Góður hringur þar sem gengið er um Sjávargötu upp í "miðbæinn" við kirkjuna þaðan eftir aðalgötunni Norðurveg - framhjá búðinni, kirkjunni og söfnum eyjarinnar. Þegar komið er útfyrir þorpið sjást fiskitrönur á hægri hönd. Þar er gengið upp að trönunum og í kringum þær og í gegnum trjáreit og eftir móanum niður að klettóttri ströndinni á austurhliðinni. Þar sem sjá má klettamyndanir, klettainnskot og sker auk þess sem leiðin liggur hjá minjum um forna búsetu, bænum Hvatastöðum. Frá Hvatastöðum er haldið aftur upp á eyjuna um leið í gegnum móa og kjarr upp á Háborðið sem er einn besti útsýnisstaðurinn á eyjunni þar sem finna má bekkjaborð og salernisaðstöðu. Þaðan er gengið niður litla brekku að listaverkinu Yggldrasil, áfram yfir í orkulindina, í gegnum skjólsælan skógarreit og þaðan niður á veginn sem liggur að þorpinu og hringnum lokið.
Kort af gönguleiðinni og hæðaryfirlit
4) Bláa leiðin
Lengd: 4 km
Tími: 1+ klst.
Undirlag: Aðalega gengið á malar og malbikuðum vegum en aðeins eftir stígum/slóðum
Upphaf/Endir: Við ferjuhöfnina
Bílastæði: Árskógssandur - við ferjuhöfnina (landmeginn)
Áhugaverðir staðir: Þorpið, tjörnin og fuglaskoðunarhúsið, flugvöllurinn og kirkjugarðurinn
Fjölbreyttur hringur um vesturhluta eyjarinnar. Gangan hefst við höfnina og gengið eftir Sjávargötu upp í "miðbæinn" þaðan sem gengið er eftir aðalgötunni Norðurveg til norðurs. Í göngu-ferðinni er m.a. gengið framhjá búðinni, kirkjunni og söfnum eyjarinnar, sumt í upphafi göngu annað í lokin.
Þegar komið er dálítið norður fyrir þorpið er tekinn smá krókur á leiðinni, að tjörninni og fuglaskoðunarhúsinu sem þar er. Þaðan er aftur gengið upp á Norðurveg og honum fylgt smá spotta áður en beygt er inn á slóðann sem leiðir að og yfir flugbrautina og niður á Lambhagaveg. Þar er stefnan tekin til suðurs að afleggjaranum að kirkjugarðinum þaðan sem er gott útsýni er suður að þorpinu. Frá kirkjugarðinum er hægt að velja um tvær leiðir - fara aftur út á Lambhaga veg og fylgja honum í átt að þorpinu eða ganga niður að ströndinni og meðfram henni fram hjá lítilli tjörn sem iðar af fuglalífi á sumrin. Þaðan liggur slóði aftur upp á Lambhagaveg. Eftir smá göngu eftir veginum til suðurs sést á ný slóði sem liggur niður á eina af sandströndum eyjarinnar þangað sem gott er að taka smá krók, sérstaklega á fjöru og njóta þess að ganga á mjúkum sandinum.
Áfram liggur leiðin til suðurs og beigt inn á Ægisgötu og niður að smábátahöfninni, framhjá sjóbúðunum og aftur niður á höfn þar sem hringnum er lokað.
Kort af gönguleiðinni og hæðaryfirlit
Græna leiðin
Lengd: 4.1 km
Tími: 1+ klst.
Áhugaverðir staðir: Þorpið, Háborðið, listaverkið Yggldrasil, Orkulindin, tjörnin
Rauða leiðin
Lengd: 6.7 km
Tími: 2+ klst.
Áhugaverðir staðir: Þorpið, Borgarbrík, Stóri og litli Boli, Hvatastaðir, listaverkið Yggldrasil, Orkulindin og tjörnin.
Gula leiðin
Lengd: 6.8 km
Tími: 2+ klst.
Áhugaverðir staðir: Þorpið, Háborðið, listaverkið Yggldrasil, Orkulindin, tjörnin
Bláa leiðin
Lengd: 4 km
Tími: 1+ klst.
Áhugaverðir staðir: Þorpið, tjörnin og fuglaskoðunarhúsið, flugvöllurinn og kirkjugarðurinn