Til baka

Hamrahamrar

Hamrahamrar er samfellt klettabelti fyrir ofan tjaldsvæðið á Hömrum. Áin Brunná sem á upptök sín sunnarlega á Súlumýrum rennur fram af klettunum um Bunnárgjá, áfram eftir Hamradal þar sem hún sameinast Syðridalslæk rétt ofan við Brunnárfoss og rennur þaðan sem Brunná áfram niður að tjaldsvæðinu að Hömrum. Þar myndar hún skemmtilegar tjarnir og leikjasvæði áður en hún heldur áfram í gegnum Kjarnaskóg og alla leið niður að Eyjafjarðará.
Gönguleiðin liggur nálægt ánni, fer í gegnum skóg, móa og upp að skátaskálanum Gamla.

Nokkrir valkostir eru á gönguleiðum t.d. frá Kjarnaskógi eða tjaldsvæðinu að Hömrum. Þaðan er gengið eftir stígakerfi skógarins, þrengri skógarstíga, jeppaslóða og kindagötum upp að Gamla. Efsti hluti leiðarinnar liggur um mólendi og er nokkuð brattur.

Vegalengd fram og til baka er um 8 km ef byrjað er hjá Kjarnakoti í Kjarnaskógi (styttra frá Hömrum). Gönguhækkun er um 230 m.

Leiðin er greiðfær og liggur að mestu um vel gróið land og ætti að taka um 1-2 klukkustundir í heildina.

Gott er að vera í góðum skóm og klæða sig eftir veðri. Hafa með hressingu, eins er gott er að hafa meðferðis göngustafi. Athugið að leiðin er bæði notuð af gangandi og hjólandi. Skátaskálinn er læstur og nýtist í skátastarfi en sjálfsagt er að nota pallinn eða skjól við húsið sem áningarstað svo lengi sem það truflar ekki skátastarfið.

Einnig er hægt að skoða leiðarlýsingu á vef Ferðamálastofu þar sem einnig er hægt að hlaða niður GPX skrá. Sjá hér

Hamrahamraleiðin er hvítaleiðin sem sjá má á kortinu hér fyrir neðan

Nánari upplýsingar

Lengd: 8 km (fram & tilbaka)
GPX hnit (niðurhal)

Tími: 1 - 2 klst ganga
Tími: 30 - 45 mín hjól

Hækkun:
230 m

Undirlag: Malarslóðar, kindagötur (moldarslóði), gras og þúfur

Upphaf/Endir: Kjarnakot (Kjarnaskógi) eða Hamrar

Bílastæði: Kjarnakot (Kjarnaskógi) eða Hamrar

Áhugaverðir staðir: Gamli, Útsýni, Kjarnaskógur, Brunná, Hamrahamrar