Gönguleið sem liggur frá brúnni við Hlíðarfjallsveg upp eftir svokölluðum Fallorkustíg upp að uppistöðulóninu fyrir Glerárstíflu og aftur niður eftir stígnum sem liggur inn að Lamba.
Bílastæði eru við nýju virkjunina fyrir ofan brúnna. Gengið er til suðurs eftir malar og moldar stíg sem liggur nálægt eða meðfram gilinu upp fyrir akstursvæði bílaklúbbs Akureyrar og Mótorkrosssvæðisins. Þar tekur stígurinn smá krók í átt að Hlíðarfjalli fram hjá skotsvæði Skotfélags Akureyrar, áður en hann heldur áfram inn dalinn og meðfram ánni.
Við stífluna er gengið yfir stífluvegginn og áfram upp brattan stíg upp á austurhlíð gilsins þar sem við tekur stígur sem liggur annarsvegar áfram inn dalinn að Lamba, fjallakofa Ferðafélags Akureyrar (ath panta þarf aðgengi að kofanum hjá félaginu). Hinsvegar liggur leiðin niður með ánni í átt að Akureyri með viðkomu við bílastæðið fyrir gönguleiðina upp á Súlur. Þegar þangað er komið liggur gönguleiðin meðfram veginum niður dalinn að brúnni þar sem gangan hófst. Einnig er hægt að breyta aðeins af leið með því að fara yfir gilið á þrem stöðum áður og klára hringinn með því að endurtaka Fallorkustíginn að hluta. Í boði eru þrjár brýr - ein til móts við bílastæðið við Súluveg, ný reiðbrú til móts við Vegagerðina eða gamla reiðbrúin til móts við hesthúsahverfið.
Stóri hringurinn upp að stíflu
(Á kortinu sést líka gönguleið yfir göngubrúnna sem er til móts við bílastæðið fyrir Súlugönguleiðina).
Súluvegur og stígur inn að stíflu
Hægt er að ganga/hjóla eða aka upp Súluveg og síðan ganga/hjóla hringinn frá bílastæðinu inn að stíflunni