Uppsalahnjúkur 940 m.
Staðarbyggðafjall blasir við Akureyri til suðausturs, en austan við fjallið liggur hinn langi og gróðursæli Garðsárdalur *).
Best er að aka að Öngulsstöðum og aka upp jeppaslóða sem liggur að sumarhúsinu Seli, þar sem finna má bílastæði. Gengið er inn um hliðið við skógræktina þar sem einnig er skilti með upplýsingar um gönguleiðina.
Genginn er vegslóði í gegnum skógarreitinn þangað til að komið er gegnum annað hlið fyrir ofan skógræktina, þar er haldið til hægri og síðan til suðurs – upp hálsinn.
Gangan er um 11 km í heildina og gönguhækkun rúmir 800 metrar. Leiðin er stikuð alla leið. Á leiðinni er komið upp á Haus, sem er fremst á fjallinu, en þangað er einnig skemmtileg ganga ef óskað er að ganga styttri leið. Haus er um 420 m og er gönguhækkun frá bílastæðinu um 270 m. Þar er varða og gestabók.
Frá Hausnum er haldið áfram inn eftir fjallinu um greiðfær holt og við Ytri Uppsalahnjúk (minni hnjúkur fyrir framan Uppsalahnjúkinn sjálfan) er stefnt til austurs eftir kindagötu í brattri hlíðinni. Síðan gengið upp norðaustur hrygg fjallsins uns komið er upp á hnjúkinn. Þar er varða og gestabók.
Mikið útsýni er frá hnjúknum. Hægt er að bæta smá göngu við og ganga frá hnjúknum til suðurs eftir Uppsalafjallinu að Uppsalaskarði.
Vegalengd um 11 km. Hækkun 870 m. Áætlaður göngutími er 5–6 klst.
Athugið að nokkur bratti er á þessari leið og mælt er með góðum skóm og göngustöfum. Skoðið einnig öryggi á gönguferðum
Hér fyrir neðan er kort af leiðinni á Wikiloc og einnig er hægt að skoða hana á svæði Akureyrarbæjar hér
*) Garðsárdalur er í raun ekki rétt heiti á dalnum því hann ber mörg nöfn allt eftir hvar í dalnum viðkomandi er staddur. Dalurinn heitir Garðsárdalur austan megin í dalnum frá bænum Garðsá að Gönguskarði, þar fyrir framan heitir Almenningur. Vestan megin heitir dalurinn Öngulstaðadalur nyrst, svo kemur Helgárdalur þar sem Helgáin rennur með upptök við Uppsalakarð og síðan Melrakkadalur. Dalurinn heitir því ansi mörgum nöfnum.
Lengd: 11 km
Tími: 5-6 klst
Undirlag: Kindagötur, melar, skriður
Upphaf/Endir: Bílastæði við sumarhúsið Sel
Bílastæði: Bílastæði við sumarhúsið Sel
Áhugaverðir staðir: Skógarreitur á hálsinum, Haus (útsýni), Uppsalahnjúkur og Garðsárdalur *)