Umlukinn mikilfenglegum fjöllum stendur nyrsti kaupstaður landsins, Siglufjörður, í samnefndum firði. Vegna staðsetningar og lögunar fjarðarins varð Siglufjörður, sem oft er kallaður Sigló, að fimmta stærsta bæ Íslands og einum frægasta síldarbæ í heimi. Fáir íslenskir kaupstaðir hafa jafn stórbrotna og viðburðarríka sögu og Siglufjörður.
Gegnum árin hefur sjávarútvegur verið undirstöðuatvinnan í þessu 1.300 manna bæjarfélagi. Um miðja tuttugustu öldina var mannlífið á Sigló í blóma en þegar mest var bjuggu yfir 10.000 manns í samfélaginu. Siglufjörður var á þessum árum fullur af skipum, silfur hafsins flæddi um bryggjur, þjónustustig var hátt og rómantíkin blómstraði.
Allt frá því að síldin hvarf á sjöunda áratugnum hafði samfélagið hins vegar verið í hnignun en á síðustu árum hafa Siglfirðingar þó snúið vörn í sókn. Þróun undanfarinna ára færir Siglufjörð í átt að aukinni þjónustustarfsemi og hefur því dregið úr vægi sjávarútvegs sem undirstöðu atvinnuvegar í samfélaginu.
Ferðaþjónusta hefur einnig stóraukist á Siglufirði á undanförnum árum og skapar nú fjölda starfa. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga tengdist Siglufjörður hringveginum um Tröllaskaga og Akureyri varð í einungis einnar klukkustundar fjarlægð. Hefur fjörðurinn því orðið mjög vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna og vaxtarmöguleikarnir á því sviði því stóraukist. Síldarminjasafnið er eitt stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins, það opnaði fyrst árið 1996 í einu húsi, Róaldsbrakka, en er í dag hýst í þremur húsum við höfnina.
Árið 2006 sameinuðust Siglufjörður og Ólafsfjörður undir Fjallabyggð, nýju nafni kaupstaðarins.
Heimilidir: www.siglo.is
Leiðarlýsing:
Google maps
Staðsetning:
66.149529, -18.911051 (66° 8.972'N, 18° 54.663'W)
Vegnúmer: 1, 82 & 76
Vegalengd frá Akureyri:
77.5 km
Tenglar:
Síldarminjasafnið
Skíðasvæðið Skarðsdal
Golfvöllurinn Sigló