Til baka

Naustaborgir

Naustaborgir er stórt opið svæði staðsett milli Kjarnaskógar og golfvallar Akureyrar. Svæðið er ríkulega gróið trjám, brotið upp með túnum og stórum klettum sem gefur svæðinu sterkan og fallegan karakter. Naustaborgir draga nafn sitt af klettaborgum nokkrum sem prýða svæðið. Aðalborgirnar eru tvær, Ytri- og Syðri-borg. Syðri-borg er hæst af öllum borgum á svæðinu og nær upp í 130 metra yfir sjávarmál. Vestan við þessar borgir liggur flatur og breiður votlendisflói sem kallast Naustaflói og í honum má finna litla tjörn sem heitir Hundatjörn. 

Mjög gott útsýni er yfir Akureyri til norðurs og Kjarnaskógs til suðurs frá hæstu punktum í borgunum. Svæðið afmarkast af Jaðarsvelli, golfvelli Akureyrar til norðurs, og Hömrum, stóru tjaldsvæði við enda Kjarnaskógs til suðurs. Rætur Súlumýra ná niður að svæðinu úr vestri og ræktarland og íbúðabyggð afmarkar það úr austri. 

Um svæðið liggja göngustígar sem tengjast bæði frá Jaðarsvelli og inn í Kjarnaskóg. Í dag er svæðið notað af útivistafólki til gönguferða og náttúruupplifunar. Reiðleið liggur meðfram svæðinu og á smá kafla inn á svæðið, og er þar sameinaður göngustíg að hluta. 

Kort af Naustaborgum og gönguleiðum

Flóinn í Naustaborgum er undir hverfisvernd og er allt jarðrask og röskun á gróðurlendi óheimil. Í flóanum voru eitt sinn grafnir skurðir til þess að framræsa vatnið og þurrka hann upp. Við þessar aðgerðir minnkaði vatnshæð Hundatjarnar sem þar er um 1 meter. Á undanförnum árum hefur verið unnið að enduruppbyggingu tjarnarinnar.

Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla, smádýra og plantna. Margvísleg ferli eiga sér stað í votlendi, svo sem vatnsmiðlun og mómyndun. Akureyrarbær tók þátt í verkefninu Countdown 2010 ásamt 13 öðrum norrænum samfélögum og einnig í Staðardagskrá 21. Verkefni sem bæði höfðu það að takmarki að vernda og endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og í Naustaborgum. Hafist var því handa við að stífla gamla skurði þannig að náttúrulegt vatn safnist fyrir á svæðinu eins og það gerði áður fyrr. Þannig endurheimta votlendi og náttúrulegan gróður og skapa skilyrði fyrir auðugu náttúrulegu fuglalífi.
Þar sem flóinn er að hluta til framræstur er enn sem komið er lítið vatn í tjörninni. Hún er að mestu gróin tjarnelftingu (Equisetum fluviatile) sem er algeng í vatnssíkjum og litlum tjörnum, og blöðrunyku (Potamogeton natans), sem aðeins finnst í tveimur tjörnum í Eyjafirði.

Fuglaskoðunarhús er í Naustaborgum. Eitt af fjórum á Akureyri. Fjölbreytt fuglalíf er í Naustaborgum og þar ber mest á mófugli og öndum.

Aðkoma:
Bílastæði eru við enda Ljómatúns og þaðan liggur göngustígur til suðurs að Naustaborgum

Nánari upplýsingar


Leiðarlýsing:

Google maps

Staðsetning:
65.662678, -18.106420 (65° 39.761'N, 18° 6.385'W)

Vegur: Sómatún

Vegalengd frá miðbænum:
4.5 km