Til baka

Glerárgil

Glerárgil er með dýpstu og mikilfenglegustu árgiljum í Eyjafirði en jafnframt eitt hið gróðurríkasta. Það er grafið af Gleránni þar sem hún rennur fram úr mynni Glerárdals í um 200 m hæð yfir sjávarmáli og nær niður að Gleráreyrum. Þótt umhverfi gilsins hafi víða verið raskað til mikilla muna hefur gilið sjálft sloppið að mestu við breytingar af manna völdum, enda á köflum lítt aðgengilegt.

Eðlilegt er að skipta Glerárgili í tvo hluta: Efra-Glerárgil og Neðra-Glerárgil. Eru mörkin á milli gilhlutanna um Réttarhvamm, sem var víður hvammur eða hvilft ofan við Rangárvallabrúna þar sem áin rennur á eyrum, en hvammur þessi hefur nú að mestu verið fylltur upp með jarðvegi. Gilhlutarnir eru á ýmsan hátt ólíkir og eiga sér ólíka sögu. Efra gilið er hrikalegt árgljúfur, allt að 80 m djúpt, og breitt að sama skapi, en neðra gilið er víðast fremur grunnt og þröngt enda greinilega yngra en efra gilið.

Góðir göngustígar eru meðfram gilinu allt frá ósum árinnar og upp að virkjunarlóninu og liggja allt að 8 brýr liggja yfir ánna, sumt fyrir blandaða umferð eins og bíla og gangandi, á meðan aðrar eru eingöngu fyrir hjól og gangandi umferð.
Með tilkomu nýju virkjunarinnar sem staðsett er við Réttarhvamm sem vígð var 2019 var byggt lón ofarlega í ánni og þangað liggur nýr göngu og hjólastígur sem einnig var tekin í notkun það ár. Í heild er vegalengdin um 12 km frá ós og upp að virkjunarlóninu.  Stígurinn fyrir neðan Réttarhvamm er að mestu leiti malbikaður á meðan sá hluti sem liggur frá virkjuninni og upp í dalinn að lóninu er grófur malarstígur.