Til baka

Landnemar

Hamarkotsklappir

Listamaðurinn Jónas S. Jakobsson starfaði á tímabili á Akureyri og árið 1956 gerði hann m.a. styttuna af Helga magra og Þórunni hyrnu sem voru fyrstu landnámsmennirnir í Eyjafirði. Göturnar Helgamagrastræti og Þórunnarstræti draga til dæmis nöfn sín af þeim auk þess sem heiti leikskólans Hólmasólar vísar til sögu þeirra. Þegar listamaðurinn var 18 ára nam hann tvö ár hjá Ríkharði Jónssyni myndhöggvara í Reykjavík og svo næstu tvö árin þar á eftir hjá Einari Jónssyni myndhöggvara, áður en hann hélt í árs nám til Ríkislistaakademíunnar (Statens Kunstakademi) í Oslo.

Styttan Landnemarnir var fyrst gerð í steinsteypu en það var of viðkvæmt efni og eyðilagðist og var hún því endurgerð í brons.


Um Helga magra (heimild: Vísindavefurinn)

Í 2. kafla Íslendingabókar Ara fróða eru taldir upp fjórir landnámsmenn, einn í hverjum landsfjórðungi. Þeir eru Hrollaugur Rögnvaldsson, sagður hafa numið land austur á Síðu og verið ættfaðir Síðumanna, Ketilbjörn Ketilsson á Mosfelli í Grímsnesi, ættfaðir Mosfellinga, Auður Ketilsdóttir djúpúðga, ættmóðir Breiðfirðinga og „Helgi hinn magri, norrænn, sonur Eyvindar austmanns“ sem „byggði norður í Eyjafirði; þaðan eru Eyfirðingar komnir.“ Ekki kemur fram hvers vegna þessir fjórir landnámsmenn eru valdir úr rúmlega tíu sinnum stærri hóp samkvæmt Landnámabók, en í viðauka Íslendingabókar eru raktar ættir frá einmitt þessum mönnum til biskupa landsins og höfðingjalið landsins frá 10. öld til 12. aldar þannig tengt saman með ættarböndum. Frá Helga er rakin ætt til Ketils Þorsteinssonar sem var biskup á Hólum þegar Ari skrifaði bók sína.

Í Landnámabók er miklu fleira sagt frá Helga, þar sem hann er stundum kallaður Magur-Helgi. Þar segir frá Eyvindi Bjarnarsyni sem var kallaður austmaður, og er það skýrt þannig að hann hafi komið austan úr Svíaríki. Hann stundaði víking á Írlandi og giftist Raförtu, dóttur Kjarvals konungs í Dyflinni. Af ótilgreindum ástæðum komu hjónin Helga syni sínum fyrir í fóstri í Suðureyjum. En þegar þau vitjuðu hans, tveimur árum síðar, hafði hann verið sveltur svo að þau þekktu hann ekki. Þá höfðu þau piltinn í burt með sér og kölluðu hann Helga magra. Þegar hann fullorðnaðist gekk hann að eiga Þórunni hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, en hann var sonur Bjarnar bunu hersis í Noregi sem sagt er að nær allt stórmenni á Íslandi sé komið frá.

Ekki er skýrt í Landnámabók hvers vegna Helgi lagði leið sína til Íslands en þannig segir frá því í Sturlubókargerð hennar:
"Helgi hinn magri fór til Íslands með konu sína og börn. Þar var og með honum Hámundur heljarskinn mágur [= tengdasonur] hans er átti Ingunni, dóttur Helga. Helgi var blandinn mjög í trú. Hann trúði á Krist en hét á Þór til sjófara og harðræða. Þá er Helgi sá Ísland gekk hann til frétta við Þór hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norður um landið. Þá spurði Hrólfur son hans hvort Helgi mundi halda í Dumbshaf ef Þór vísaði honum þangað því að skipverjum þótti mál úr hafi er áliðið var mjög sumarið. Helgi tók land fyrir utan Hrísey en fyrir innan Svarfaðardal. Hann var hinn fyrsta vetur á Hámundarstöðum. Þeir fengu vetur mikinn. Um vorið gekk Helgi upp á Sólarfjöll. Þá sá hann að svartara var miklu að sjá inn til fjarðarins er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim er þar lágu úti fyrir. Eftir það bar Helgi á skip sitt allt það er hann átti, en Hámundur bjó eftir. Helgi lenti þá við Galtarhamar. Þar skaut hann á land svínum tveimur, og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal; voru þá saman sjö tugir svína. Helgi kannaði um sumarið hérað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness og gerði eld mikinn við hvern vatnsós og helgaði sér svo allt hérað. Hann sat þann vetur að Bíldsá, en um vorið færði Helgi bú sitt í Kristsnes og bjó þar meðan hann lifði. Í búfærslunni varð Þórunn léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará. Þar fæddi hún Þorbjörgu hólmasól. Helgi trúði á Krist og kenndi því við hann bústað sinn. Eftir þetta tóku menn að byggja í landnámi Helga að hans ráði."

Síðan segir frá því hvernig Helgi gaf mönnum af landnámi sínu. Aðrir námu land að ráði hans, án þess að tekið sé fram að þeir hafi beinlínis tekið við því að gjöf. Um enn aðra er sagt að þeir hafi numið land á tilteknum stað á svæðinu án þess að tekið sé fram að Helgi hafi leyft það. Alls er sagt frá um 30 mönnum sem byggðu í landnámi hans. Síðar í Landnámabók er Helgi talinn meðal átta manna sem eru sagðir hafa verið „ágætastir landnámsmenn“ í Norðlendingafjórðungi. Margt fólk í bókinni er líka ættfært með því að tengja það við Helga. Hann er sýnilega talinn meðal helstu höfðingja landnámskynslóðarinnar.

Í Íslendingasögum er Helgi nefndur nokkrum sinnum, oftast vegna ættartengsla við fólk sem þar kemur við sögur. Í Víga-Glúms sögu og Ljósvetninga sögu kemur einnig fram, það sem kemur ekki á óvart, að ætt Helga fór með goðorð í Eyjafirði. En vafasamt er hvort Helgi lifði svo lengi að hann næði að sitja á Alþingi sem goðorðsmaður. Í Svarfdæla sögu er tæpt á einkennilegri sögu þar sem birtist allt önnur mynd af Helga en ella. Þar er minnst á Þorkötlu nokkra, annars óþekkta persónu, og Kötlufjall sem er sagt kennt við hana „því að Helgi hinn magri deyddi hana þar og kól hana í hel svo að hann sat henni þar mat [= varnaði henni matar] þar til er hún dó.“ Er líkast því að þarna glytti í alþýðlega sögn sem hafi birt fjandsamlegri mynd af héraðshöfðingjanum en oftast er að finna í sögum.

Frásagnir af Helga magra eru allar skráðar tveimur öldum eftir að Helgi var uppi, eða þaðan af meira. Reynslan sýnir að ekki er hægt að treysta því að sögur sem hafa gengið svo lengi í munnmælum segi rétt eða nákvæmlega frá. Hér er þess hins vegar að gæta að Helgi var í vel þekktri fjölskyldu og kona hans jafnvel enn betur þekktri. Sögur af Helga og Þórunni konu hans hafa sjálfsagt verið margsagðar og oft í félagsskap þar sem nógir voru til að leiðrétta ef sagan vildi afbakast. Mestar líkur verða því að teljast á að þau hjón hafi verið til í raun og veru og frásagnir af þeim líklega í meginatriðum réttar.

Ef sleppt er efasemdum um sannleiksgildi má spyrja hvað Helga gekk til að nema svona gríðarlega stórt land, Eyjafjörð allan milli ystu útnesja. Mælt í fjölda bújarða á síðari öldum var landnám hans hið stærsta á öllu landinu, með um 480 býli á fyrri hluta 19. aldar. Næst kom landnám Ingólfs Arnarsonar með um 420 býli. Nærtækast er að hugsa sér að Helgi hafi ætlað sér og afkomendum sínum að gerast höfðingjar yfir öllu héraðinu. En það virðist ekki hafa gerst. Fræðimenn telja að goðorð Helga hafi skipst á milli sona hans og sonarsona, og eftir að samtímaheimildir koma til, á 12. öld, var ekkert héraðsríki í Eyjafirði. Það gerðist ekki fyrr en á öðrum áratug 13. aldar þegar aðkomumaðurinn Sighvatur Sturluson, sonur Sturlu Þórðarsonar í Hvammi í Dölum, settist að á Grund og safnaði undir sig öllum völdum á austanverðu Norðurlandi.