Dettifoss er talinn aflmesti foss Íslands og jafnframt í Evrópu. Hann er um 45 metra hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og á upptök sín í Vatnajökli. Dettifoss ásamt nærliggjandi fossum og næsta nágrenni þeirra austan Jökulsárinnar hefur verið friðlýst sem náttúruvætti frá árinu 1996.
Hægt er að komast að fossinum beggja vegna árinnar. Vegurinn vestan megin árinnar (nr. 862) er með bundnu slitlagi alla leið frá þjóðvegi 1 og norður að vegi 85 við Ásbyrgi. Sá vegur er þjónustaður að einhverju leyti fram að áramótum og svo aftur upp úr miðjum mars. Færð getur samt fljótt spillst á vetrum og vegurinn lokast þannig að best er að skoða á vef Vegagerðarinnar hvort fært sé að fossinum og eins á FB síðunni: Jökulsárgljúfur - Vatnajökulsþjóðgarður um ástandið á svæðinu og svo er gott að skoða veðurspá dagsins fyrir svæðið.
Vegurinn austan megin árinnar (nr. 864) er hins vegar seinfarinn malarvegur og engin þjónusta á þeim vegi að vetri til.
Snyrtingar eru við bílastæðið við Dettifoss vestan megin (við veg 862) og eru opnar allt árið.
Snyrtingarnar austan megin árinnar við veg 864 eru eingöngu opnar frá miðjum júní og fram yfir miðjan september.
Margir velta því fyrir sér frá hvorum bakkanum sé betra að skoða Dettifoss og er vandasamt að svara því. Þó er víst að nýir útsýnispallar að vestanverðu gefa fólki tækifæri til að sjá stærri hluta af fossinum en hægt er að austanverðu. Auk þess blasir fossinn beint við að vestanverðu, í stað þess að sjá hann frá hlið að austanverðu. Þetta þarf samt hver og einn að dæma fyrir sig. (Myndin hér fyrir ofan sýnir útsýnið af útsýnispallinum vestan megin).
Á sumrin er tilvalið að fara hring, koma við á Mývatni, Dettifossi, Hljóðaklettum, Ásbyrgi og Húsavík en athugið að þetta er stór hringur og tekur rúma 4 klst (310 km) í keyrslu eingöngu, auk stoppa. Þannig að leggja þarf snemma af stað og reikna með að koma seint heim ef þessi hringur er ekinn.
Leiðarlýsing á: Google maps
Staðsetning: 65.811682, -16.400093 (65° 48.701'N, 16° 24.006'W)
Vegnúmer: 1 & nr 862
Vegalengd frá Akureyri: 135 km