Vinsælt er að heimsækja næsta nágrenni Akureyrar og fara inn Eyjafjörðinn eða fram eftir eins og heimafólk segir.
Í Eyjafjarðarsveit má finna marga áhugaverða staði svo sem: Smámunasafnið, Hælið – setur um sögu berklanna, Skógarböðin, sex fallegar kirkjur (Grund, Saurbæjarkirkju, Hólakirkju, Möðruvallakirkju, Munkaþverárkirkju og Kaupangskirkju) og Jólagarðinn þar sem hægt er að komast í jólastemningu allt árið. Einnig má rölta um fallega skógarreiti eins og Grundarreit, Leyningshóla og/eða Garðsárreit eða bregða sér í fjallgöngu m.a. á Uppsalahnjúk.
Blómleg ferðaþjónusta er í sveitinni og hægt að kaupa veitingar og vörur beint frá býli á nokkrum stöðum (sjá kort hér fyrir neðan).
Hægt er að fara gangandi eða hjólandi frá Akureyri að Hrafnagili um útivistarstíginn sem liggur vestan megin í dalnum um 9 km.
Þeir sem aka geta valið að fara nokkra mislanga hringi um dalinn og fyrir þá sem vilja fara alla leið upp úr dalnum, þá liggur jeppavegur (F821) upp dalinn og í Laugafell (athugið eingöngu opin á sumrin).