Er lítið myndrænt þorp um 20 mín akstur norðan við Akureyri, við vestanverðan fjörðinn og tilheyrir Hörgársveit.
Sjálf Hjalteyrin er undir svonefndum Bakkaásum sem myndaðir eru úr efni sem ísaldarjökullinn ruddi á undan sér fram og út Eyjafjörðinn. Hjalteyrin er mynduð úr tveim malarkömbum sem mynda tjörn á sjálfri eyrinni. Austast á eyrinni er Hjalteyraroddi og þar stendur Hjalteyrarviti í dag – um 10 metra hár viti á járngrind sem byggður var 1920.
Byggð á Hjalteyri hófst um 1890 – 1900 vegna áhrifa frá síldveiðum, en þær höfðu gríðarleg áhrif á þetta litla þorp sem og víðar. Hjalteyri varð stærsta byggðarlag við Eyjafjörð utan Akureyrar um aldamótin 1900 og sem merki um mikilvægi Hjalteyrar má benda á að ein að fyrstu símstöðvum landsins kom þangað strax árið 1906.
Þegar síldin hvarf um 1967 var síldarverksmiðjunni lokað og byggðin náði aldrei aftur fyrri hæðum eftir það. Í dag er Hjalteyrin meira og meira sem dvalar – og frístundastaður með gömlu húsin og höfnina sem aðdráttarafl. Heimildir: Minjastofnun
Vinsælt er að rölta um fjöruna, eða um þorpið og upplifa stemninguna. Skemmtilegur göngustígur liggur í kringum Hjalteyrartjörnina.
Fjölbreytt starfsemi er í gömlu síldarverksmiðjunni. Þar er menningarmiðstöðin Verksmiðjan og oft fjölbreyttar listsýningar í boði. Nokkur fyrirtæki eru þar með starfsemi m.a. Strýtan köfunarfyrirtæki, handverksfólk og iðnaður. Á sumrin er boðið upp á hvalaskoðun frá Hjalteyri og aðra afþreyingu.
Leiðarlýsing:
Google maps
Staðsetning:
65.850842, -18.194192 (65° 51.051'N, 18° 11.652'W)
Vegnúmer: 1, 82 & 811
Vegalengd frá Akureyri:
24.5 km
Tenglar:
Verksmiðjan menningarhús
Strýtan köfun