Ásbyrgi er eitt mesta náttúruundur landsins, gróðurvin í skjóli skeifulaga klettahamra.
Talið er að Ásbyrgi hafi myndast við að minnsta kosti tvö hamfarahlaup úr norðanverðum Vatnajökli, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökulsá fært sig til austurs. Þjóðsagan segir á hinn bóginn að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið og þannig hafi svæðið orðið til.
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973. Ásbyrgi var þá utan þjóðgarðs, en varð hluti af honum árið 1978 og færðist síðan undir Vatnajökulsþjóðgarð árið 2008.
Um Ásbyrgi hafa verið lagðir göngustígar með upplýsingaskiltum. Á svæðinu er mikið af fallegum gróðri og mikið fuglalíf enda mynda tignarlegir hamraveggir gott skjól og ákjósanleg hreiðurstæði. Það er ekki síður skemmtilegt að fara í Ásbyrgi á haustin, þar sem fallegir haustlitirnir setja sterkan svip á þetta einstaka náttúruundur.
Botnstjörn innst í Byrginu er í leifum fosshylsins sem myndaðist í hamfarahlaupunum þegar Ásbyrgi varð til. Hún er tær og einstaklega falleg. Þar verpa rauðhöfðaendur ár hvert. Vestan við tjörnina er útsýnisklettur þaðan sem sér yfir allan skóginn. Talsvert fýlavarp er í klettunum og nokkur gauragangur í þeim yfir sumarið.
Í Ásbyrgi er mikið af sveppum síðsumars, s.s. kúlalubba og berserkjasvepp.
Frá Akureyri er þjóðvegur 1 ekinn áleiðis austur að vegi nr. 85 þar sem beygt er í átt að Húsavík og þeim vegi fylgt alla leið að Ásbyrgi þar sem beygt er inn á veg nr. 861 og ekið inn að bílastæðinu innst í byrginu. Frá bílastæðinu liggja nokkrir göngustígar m.a. að Botnstjörn.
Við bílastæðið eru salerni og einnig við þjónustumiðstöðina við upphaf vegar nr. 861. Verslun og tjaldsvæði eru einnig á svæðinu.
Á veturna er Gljúfrastofa í Ásbyrgi opin virka daga, sjá nánar á vefsíðu þjóðgarðsins. Ásbyrgisvegur (nr. 861) nýtur ekki vetrarþjónustu og verður yfirleitt ófær minni bílum yfir háveturinn. Margir fara því gangandi frá Gljúfrastofu og áleiðis inn Ásbyrgi, en með því að ganga eftir veginum fæst sterk upplifun af umhverfinu. Gott sjónarhorn fyrir ljósmyndir er við suðurenda Eyjunnar (sjá myndina hér fyrir ofan). Um 4 km eru eftir veginum frá Gljúfrastofu og að bílastæðinu við Botnsvatn.
áður en lagt er í ferðalag - sérstaklega á veturna.
Á sumrin er tilvalið að fara hring, Mývatn, Dettifoss, Hljóðaklettar, Ásbyrgi og Húsavík en athugið að þetta er stór hringur og tekur rúma 4 klst (310 km)
bara í keyrslu auk stoppa. Þannig að leggið snemma af stað og reiknið með að koma seint heim.
Leiðarlýsing á: Google maps
Staðsetning: 66.001853, -16.512407 (66° 0.111'N, 16° 30.744'W)
ISN93: 612.918, 613.924
Vegnúmer: Þjóðvegur 1, nr 85 og nr 861
Vegalengd frá Akureyri: 138 km