Til baka

Rauðu hjörtun

Hjörtun í umferðaljósunum, hjartað sem sló og slær vonandi aftur í Vaðlaheiðinni, hjartað í göngugötunni og rauðu límhjörtun í mörgum gluggum húsanna, hafa sannarlega vakið athygli þeirra sem sækja Akureyri heim og hafa þau eignast fastan sess í hjörtum bæjarbúa.

Forsaga hjartanna nær til ársins 2008 en það sumar tók hátíðin Ein með öllu sem haldin er um verslunarmannahelgi miklum breytingum sem fjölskylduhátíð. Eitt af því sem gert var til að leggja áherslu á gildi hátíðarinnar var að setja rauð hjörtu í umferðaljósin og vöktu þau mikla lukku.

Sama haust urðu miklir erfiðleikar í samfélaginu sökum fjármálahruns og þótti þörf á að smita jákvæðni og bjartsýni til allra. Með það að leiðarljósi fóru Akureyrarstofa og fyrirtækið Ásprent-Stíll í samstarf um að dreifa jákvæðum skilaboðum sem víðast og hvetja sem flesta til að taka þátt. Átakið var kallað “Brostu með hjartanu” og er óhætt að segja að þátttakan hafi verið mikil.

Hjörtun slógu í gegn og það sama gildir um tilvitnanir og málshætti sem hvöttu til bjartsýni og jákvæðni en fjöldi fyrirtækja og stofnanna skreyttu veggi sína með slíkum hvatningum.

Í lok nóvember sama ár birtist svo rautt risastórt sláandi hjarta í Vaðlaheiði. Hjartað, sem seinna varð hvítt að lit, var á stærð við fótboltavöll og áttu starfsmenn fyrirtækisins Rafeyrar heiðurinn að þessari frábæru hugmynd og framkvæmd hennar en fyrirtækið fékk aðstoð frá m.a. Bechromal og RARIK og Norðurorku. Hjartað sló árlega frá lok nóvembermánaðar, þegar aðventan hófst og fram í apríl. Það sló einnig á Akureyrarvöku síðustu helgina í ágúst, á afmæli Akureyrarbæjar. Hjartað í Vaðlaheiði hefur verið óvirkt í nokkur ár en vonir standa til að því verði komið í gang á ný.

Vinsælt er að taka mynd af hjörtunum í umferðaljósunum og því hefur sérstöku sjálfu umferðaljósi verið komið fyrir á öruggum stað (fjarri umferð) í nágrenni Hofs. Sjá staðsetningu hér.

Árið 2020 bættist svo við nýtt rautt hjarta við suðurenda Göngugötunnar. Það voru Miðbæjarsamtökin sem stóðu að uppsetningunni í samstarfi við Akureyrarbæ. Hugmyndin er einkum sú að fólk staldri við og taki mynd af sér við hjartað og deili á samfélagsmiðlum.

Þeir sem taka myndir af hjörtunum á Akureyri eru hvattir til að merkja myndirnar með myllumerkjunum #heartsofakureyri og #loveakureyri.