Vinsæl hjólaleið sem reynir á þol hjólreiðamanns og getur verið krefjandi því hún er mest megnis utanvegar, á klöppum og á slóðum.
Hjólreiðafélag Akureyrar á heiðurinn af þessari leið og skýrði hana "Claim your throne" og er samsetning af mörgum fjallahjólaleiðum.
Leiðin byrjar upp í Gönguskíðaskálanum í Hlíðarfjalli og endar við veginn rétt hjá Kjarnaskógi, en þar á milli er farið í gegnum Glerárdal, Fálkafell, Naustaborgir, Hvammskóg og síðan Kjarnaskóg. Hægt er að aðlaga leiðina að þörfum hvers og eins og hægt að taka bara hluta eftir því sem hentar.
Frá Gönguskíðaskálanum er farið niður leiðirnar sem heita "Gosinn" og "Drottningin" og enda við stífluveginn sem liggur inn Glerárdalinn. Frá veginum liggur slóði niður að ánni og að gömlu brúnni. Athugið að slóðin niður að ánni er mjög brött og kröpp á köflum og mögulega þarf að leiða hjólið niður mesta brattann.
Þegar komið er yfir brúnna er haldið áfram upp slóðina sem liggur að bílastæðinu fyrir Súlur. Næsti kafli af leiðinni liggur beint upp af bílastæðinu og áfram upp að Fálkafell, hús skátafélagsins. Frá skálanum er stefnt í suðvestur eftir vegslóða sem liggur upp hæðina beint vestur af húsinu.
Þegar komið er upp að klöppunum þá er mesta hækkunin búin og slóðin liggur þá niður á við meðfram klöppunum fyrir ofan Kjarnaskóg að öðrum skála sem skátarnir eiga, kallaður Gamli. Á leiðinni er víða flott útsýni yfir skóginn, Hamra og fjörðinn.
Frá Gamla liggur leiðin áfram eftir klöppum og klapparbrúnum til suðurs / suð-austurs þangað til að komið er í Hvammskóg. Þar liggur leiðin eftir skógarslóða í gegnum fallegan skóg áður en komið er í Kjarnaskóg. Áður en komið er inn á stíginn í Kjarnaskógi er hægt að velja hvort farið sé niður skógarreitinn í Kjarnaskógi eins og verið værir að "taka einn spaða" eða Spaðabrautina eða taka því rólega og fylgja almenna stíginn í gegnum Kjarnaskóg.
Þegar þú hefur klárað "Claim Your Throne" þá hefurðu unnið þér inn ákveðin montréttindi og góða hreyfingu.
Claim Your Throne on Trailforks.com
Lengd: 15 km
Erfiðleikastig: Krefjandi
Hækkun: 400 m
Upphaf & endir: Gönguskíðaskáli - Eyjafjarðabraut vestri (821)
Bílastæði: Mælt með að fá skutl upp í Hlíðarfjall.
Hjólagerð: Fjallahjól