Til baka

Fálkafell

Skemmtileg blanda af bæjarstígum og krefjandi fjallaleið.

Byrjum niðri í bæ og hjólum sem leið liggur að Gleránni og fylgjum stígnum meðfram ánni upp að Hlíðarfjallsvegi/Steypustöðinni.

Þar förum við yfir ánna og stefnum á Súlur/Súluveg. Súluvegur er að hluta malbikaður en þegar ofar er komið breytist hann í malarveg. Fyrir ofan skógarreitinn sem er meðfram Gleránni (á hægri hönd) kemur vegslóði til vinstri upp á malarplan, þar er einnig lítill skúr, leiðin liggur fram hjá honum og upp til hægri. Vegslóðanum er fylgt upp hlíðina fram hjá stæðilegri vörðu og upp hæðina þar sem hús skátanna Fálkafell blasir við. Þaðan er fallegt útsýni yfir Akureyri og út fjörðinn.

Frá Fálkafelli er annaðhvort hægt að halda sömu leið tilbaka eða takast á við smá áskorun og fara fjallahjólabrautina niður að Súlubílastæðinu og þaðan aftur niður Súluveginn og meðfram Þingvallastræti niður í bæ og að byrjunarreit.

Athugið! Til að komast inn á fjallahjólabrautina þarf að halda áfram frá Fálkafelli stuttan spöl eftir slóða sem liggur yfir mýrina með stefnu á Hlíðarfjall (til vesturs). Fjallahjólabrautin kemur inn á þann slóða hægra megin, við upphaf brekkunnar sem tekur við eftir mýrina.

 

 

Nánari upplýsingar


Lengd:
15 km (hringur)

Erfiðleikastig: Miðlungs / erfitt

Undirlag: Malbik, malarvegur og slóði

Hækkun: 380 m

Upphaf & endir: Hof