Grímsey er græn, grösug og einstaklega gjöful eyja. Útvörðurinn í norðri með auðug fiskimið og litríkt fuglalíf. Frægust er Grímsey trúlega í hugum ferðamanna fyrir heimskautsbauginn og kemur fólk gjarnan langa leið til þess eins að stíga norður fyrir baug. Heimskautsbaugurinn er alltaf á örlítilli hreyfingu og segir sagan að eitt sinn hafi hann legið um mitt hjónarúm prestsins á Básum.
Grímsey er 5,3 km2 að stærð. Hæst er hún 105 metrar og er fjarlægð frá Íslandi 41 km. Mannlífið er kröftugt og bjart. Grímseyingar eru miklir gleðimenn sem vinna og skemmta sér af alhug. Aðalatvinnuvegurinn er fiskveiðar og fiskverkun. Einn besti íslenski saltfiskurinn er einmitt unninn þar. Múli er myndarlegt félagsheimili og fjölnotahús. Þar er samkomusalur íbúa, bókasafn, Eyjarbókasafnið, og heilsugæsla. Miðgarðakirkja var reist úr rekavið árið 1867. Hún er nýendurgerð í upprunalegum litum. Það er Dalvíkurpresturinn sem þjónar þar nú. Þrír læknar á Akureyri skiptast á og koma einu sinni í mánuði að sinna heilsufari íbúa. Góð sundlaug var vígð árið 1989.